Regluverk
Sýning Hugsteypunnar í Listasafni ASÍ 8.-30. nóvember 2014
Hér standa skífuritin sem fundnir hlutir. Með því að rjúfa samhengi upplýsinga og framsetningar er merkingin í uppnámi, uppnámi sem enn er aukið á með fagurfræðilegum brögðum. Hefðbundið hlutverk skífuritsins sem myndræn framsetning á ákveðinni tegund upplýsinga er aðeins efnisorsök, aðeins það sem veldur innbyrðis hlutföllum, en ekki það sem afmarkar merkingu skífunnar. Hér hefur samhengi listhlutarins truflað hefðbundnar merkingarleiðir þekkingar. Regluverkið er til staðar en það er margrætt og hefur ekki skýra tilvísun. Þrátt fyrir þessa opnun erum við ekki algerlega laus. Fyrir þá sem vilja (og jafnvel hina líka) eru tölurnar, með öllum sínum töfrandi ljóma hins mælanlega (eða vísindalega), einnig aðgengilegar.
Það sem sem tölurnar standa fyrir er niðurstaða úr rannsókn á skynhegðun listamanna. Sú hugmynd að listamenn hljóti að skynja umhverfi sitt á einhvern þann hátt sem er frábrugðinn því sem venjulegur einstaklingur gerir er ekki ný af nálinni. Listamaðurinn sem einhverskonar sjáandi, sá sem sér inní innra samhengi hlutanna, er næmur á smáatriði sem aðrir sjá ekki, er fær um fínleika í snertingu við heiminn sem öðrum er ekki mögulegur, eru allt stef sem ganga aftur alla leið til Platóns og eflaust lengra. Hér er fengist við afbrigði af þessari hugmynd með aðferðarfræði félagsvísindanna. Hér er það ekki listamaðurinn sem rómantískur sjáandi sem er viðfangsefnið, heldur listamaðurinn í samhengi greiningarinnar, rófsins, fráviksins. Eins og í hefðbundinni rannsókn eru listamennirnir (viðföngin) sviptir einkennum sínum, þeim breytt í tölulegar stærðir, í mælanlegar einingar (hér er allt svo hlutlaust og sérkennalaust), í viðbrögð sem eru mælanleg og yrðanleg. En þar með er ekki sagt að hægt sé að fullyrða um niðurstöðuna, hvort sem er í orðum, eða tölulegum formúlum. Eins og sannir vísindamenn gera listakonurnar sér grein fyrir að gögn eru aðeins gögn í krafti þeirrar túlkunar sem beitt er á þau. Túlkunin tekur svo á sig ólíkar efnismyndir listaverksins.
Kjarni merkingar er kannski einfaldlega reglubundin endurtekning, og ekkert annað. Hvernig við skynjum og hugtökum heiminn er þá bundið því hvernig hann birtist okkur reglubundið, hvernig hann endurtekur sig, hvernig hann er aftur og aftur og aftur. Reglur eru oft útskýrðar með vísan í virkni þeirra, og oft er litið svo á að þær séu leiðbeinandi, hafi fordæmisgildi. En eins og íslenskan gerir svo skemmtilega ljóst, þá eru þær einnig náskyldar því að gerast aftur og aftur (reglubundið) án þess að nokkur gerandi, eða höfundur, eða vilji búi að baki. Skynjun okkar á heiminum, hvort sem við erum listamenn eða ekki, er eflaust að einhverju leyti bundin bæði reglum (sem segja fyrir um) og því sem er reglulegt (sem gerist kerfisbundið aftur og aftur), hvort sem sem við leitum að útskýringum í lífeðlisfræði augans og heilans, eða einshverskonar hugfræði skynjunar. Báðar tegundir reglna eiga sér endurspeglun í verkunum. Það er ákveðin regla á því hvernig hlutföll milli talna ráða myndrænni framsetningu, og það er ákveðin regla í endurteknu stefi verkanna.
Samklippt svör, rifin útúr samhengi sínu, ljóðræn framsetningin, eintal áhorfanda við bókverk minna um sumt á aðfarir Dada og Beat, þar sem markmiðið var einmitt að losna undan regluverki, regluverki tungumálsins, að losna undan merkingu sem virtist orðin óumflýjanleg. Aðferðin var að ýta skynseminni út, hrifsa tungumálið úr höndum hennar. Í gulu verkunum, Gul ljóð, Gult eintal og Gul lykt, myndast um margt svipuð spenna, þó svo að hér séu það ekki reglur tungumálsins sem er brotist undan, heldur reglur um það hvernig staðreyndir verða til. Hér er það merking annarsvegar, og þekking hinsvegar sem er slegið saman, eða látin stangast á. Það er hætt að trufla okkur (eða allavega látum við þannig) að merking geti orðið til með hjálp hendingar, en kannski erum við ennþá á varðbergi þegar kemur að þeirri hugmynd að þekking geti orðið til fyrir tilstilli hendingar.
Merking, rof milli framsetningar og upplýsinga, reglur, hending og fleiri nánast ójarðtengd hugtök; en allt byrjar þetta í skynjun, þetta byrjar í þeirri einföldu staðreynd, að það hvernig við skynjum heiminn er ennþá jafn dularfullt, spennandi og óútskýrt og það hefur alltaf verið. Þar byrjaði rannsóknin, og þar er raunverulegt samhengi verkanna. Það er því við hæfi að enda á því að ganga inní litahjólið og finna hvernig Litur er bara litur, en það er líka fyllilega nóg.
Jóhannes Dagsson, heimspekingur
Prentvæna útgáfu má nálgast hér: Regluverk
Sjá heimasíðu Hugsteypunnar: Hugsteypan