Málverk Jóhannesar Dagssonar eru nokkuð flóknar samsetningar. Í sumum má sjá óræð form sem hlaðast upp miðjan myndflötinn, hvert ofan á annað, máluð í mismunandi litum og með mismunandi áferð og pensilskrift. Stundum máluð þykkt en stundum svo þunnt að liturinn rennur til. Sumar eru bókstaflega settar saman úr fleiri en einum fleka og eru þá sumir fletirnir í raun ljósmyndir þótt varla megi greina í þeim neitt myndefni. Ljósmyndirnar kallast á við máluðu verkin og undirstrika óræðni þeirra: Óhlutbundnar myndir sem þó virðast draga okkur inn í einhvers konar frásögn og kalla á túlkun og tengingar við hinn sýnilega heim.
Þótt hundrað ár séu liðin frá því listamenn fóru fyrst að mála óhlutbundin málverk er ennþá eitthvað svolítið skrýtið við þau, einhver undarleg gáta eða þversögn. Þegar abstraktið kom fyrst fram töldu margir að þetta væri bara vegna þess að fólk væri ekki vant því að myndir væru ekki myndir af einhverju. Hvernig stendur á því að núna, þremur kynslóðum síðar, geta slík verk ennþá valdið okkur heilabrotum?
Í sumum af málverkum Jóhannesar sjáum við hann vega salt á mótum hins myndræna. Málverkin eru vissulega abstrakt en í þeim birtast form og litir sem virðast vísa í veruleikann, andlit, skip eða landslag. Það er sama hvað við streitumst á móti; myndirnar stökkva fram af striganum. Skynjun okkar er svo bundin veröldinni að það er beinlínis erfitt – ef ekki næstum ómögulegt – að mála mynd sem er svo abstrakt að einhver geti ekki lesið eitthvað úr henni. Þetta sannaði Jóhannes reyndar á skemmtilegan hátt á sýningu sinni í Listasafni ASÍ árið 2010 þegar hann sýndi ljósmyndir af samanbrotnum fötum sem litu út fyrir að vera af landslagi. Þar röðuðust mismunandi jarðlög eða gróðurbelti saman á myndfletinum, alveg eins og í landslagsmálverki. Það að lesa málverk og sjá eitthvað út úr þeim er ekki bara vani heldur hefur eitthvað með skynjun okkar og skilning að gera. Það þarf ekki nema þrjár, fjórar línur til að teikna andlit og ein lína dregin lárétt yfir myndflötinn minnir okkur á sjóndeildarhring og landslag.
Abstraktmálverk fjalla ekki um hlutveröldina, eru ekki myndir af neinu, en það þýðir auðvitað ekki að þau fjalli ekki um neitt. Fyrst og fremst fjalla þau um sjálf sig og í málverkum Jóhannesar sjáum við þetta glöggt. Hann dregur athygli okkar að litnum og teflir ýmist saman andstæðum eða fínlegum tilbrigðum í litatónum. Mismunandi áferð litarins kallar líka á athygli okkar, spennan milli forma, milli litar og forms, milli ólíkra hluta myndflatarins. Abstraktmyndir snúast um þetta og um þau hughrif sem heildin kallar fram. Fagurfræði abstraktmálverksins fjallar – eins og frumkvöðlarnir sögðu – um liti, form og línur
Jóhannes brýtur þessa reglu samt á afdráttarlausan hátt með því að nota ljósmyndir sem hluta af samsettum málverkum sínum. Það má segja að ljósmyndin sé andstæða abstraktmyndlistarinnar: Ljósmyndin er alltaf af einhverju, skráning á sýnilegum veruleika, meira að segja þegar hún er jafn óræð og ljósmyndirnar sem Jóhannes notar. Hann hefur áður sýnt ljósmyndir sem hluta af málverki. Á sýningu hans í Hafnarborg 2005 var verk þar sem hann nýtti ljósmyndir úr landgræðsluferð bænda úr Aðaldal árið 1958. Þar fór ekki á milli mála að verkið væri frásögn, meira að segja frásögn af ákveðnum atburði, ákveðnu fólki og stöðum. Ljósmyndirnar sem hann notar nú sýna svo lítið að úr fjarlægð virðast þær vera lítið meira en yrjóttir, gráir fletir og það er aðeins þegar við skoðum þær betur að við sjáum er þetta eru ljósmyndir. Það kemur á óvart og er næstum sjokkerandi: Hvað er veruleikinn að gera í þessu fallega abstraktverki?
Þannig leikur Jóhannes sér með skynjun okkar og væntingar en þótt leikurinn sé léttur og myndirnar fallegar getur sýningin vakið okkur til umhugsunar um það hvernig við upplifum veröldina í kringum okkur og hvernig sú skynjun stýrir skilningi okkar og hugsun.
Jón Proppé
Printable version Myndliðir